Nú keppast allir við að sverja af sér ábyrgð á skrípómálinu. JP segja að það hafi verið Imamanarnir (skilst að það séu einhvers konar prestar) sem hafi komið þessu af stað með röngum upplýsingum um kóranbrennur og fleira hátíðlegt.
Svo kemur aðal Imaminn og segir, nei herregud det var ikke min skyld. Við fluttum ekki rangar upplýsingar. En svo skipti hann um skoðun og sagði við notuðum bara tjáningarfrelsið okkar. Og svo skipti hann aftur um skoðun og sagði hvaða upplýsingar, þetta eru bara gróusögur. Við vitum ekkert um þessar staðhæfingar. Hann hélt að hann væri háll sem áll en virkaði bara asnalegur. Hann var frekar eins feitur blár flóðhestur í ninjaleik.
Þetta er náttúrulega risamál hérna í Danmörku og í mörgum öðrum löndum. Veit ekki hversu mikið af þessu kemur heim til Íslands.
En það sem fer mest í taugarnar á mér, það sem að gerir mig alveg ógeðslega pirraðan, úrillan og reiðan er þegar talsmenn sumra múslimahópa koma fram, þá tala þeir um hvað þetta sé eðlilegt að vera pirraður og eðlilega hefði mátt búast við þessum viðbrögðum. Við verðum að vinna saman og taka tillit til hvers annars. Það verður að koma til móts við Islam.
Þetta lúkkar vel í sjónvarpi og selur nokkra sleikipinna en hvað meinar fólk.
Má ekki teikna skrípó. Eða má bara ekki teikna skrípó af Múhammeð. Eða má bara ekki stríða múslimum, búhú.
Ég sé bara ekki hvernig er hægt að réttlæta það í danskri menningu (sem er ansi lík íslenskri), að það sé einhver undanskilinn skrípó.
Og það þykir mér RISAstór hluti af þessu máli. Það að mega ekki gera grín að múhammeð er ansi stór biti af minni menningu.
Ein af mínum uppáhaldsteiknimyndasögum er frönsk. Fjallar hún um útúrreykta nunnu, sem gengur um í Dr.Martins og lemur púka og aðra franska embættismenn. Í einni sögunni drepur hún Jesú. Sem er bara sjúkt, en þannig vill ég hafa það og ég er ekki tilbúinn til að fórna því.
Og svo annað, þá var Dönum líkt við Nasista á Sky news áðan. Fólk er náttúrulega alveg snarbilað. Það eru skrípamyndir í dagblaði vs. dauðahótanir, sprengjuhótanir, íkveikjur, árásir og mannrán. Og svo er vandamálið náttúrulega að þeir örfáu sem þora að segja sannleikann eru kallaðir rasistar. Ég horfði á Sky í gær, m.a. umræður um frumvarp sem bannar fólki að gera grín að múslimum. Og til að hafa hlutfallið gott þá var einn á móti þrem í umræðunum. Við verðum að taka tillit til múslima og ekki gera grín að þeim búhú. Þessi eini vildi ekki að það væri sett í lög, og vildi ekki sjá að fólki væri mismunað eftir trúarbrögðum. Það væru lög um meiðyrði og að menn bæru ábyrgð á gjörðum sínum. Og hann var hvað eftir annað kallaður rasisti.
Það er vandamálið með sannleikann, það sjá ekki allir sama sannleikann.