12 June, 2009

Þá eru bleyjurnar komnar

Og við byrjuð að æfa okkur á Bjarna Bangsa.

Annars er það að frétta af okkur skötuhjúum að Elín er kominn í barneignarfrí og ég enn í vinnunni. Hún er því heimavinnandi, sér um að þvo þvott í nýju þvottavélinni (takk mamma og pabbi) þrífa og elda mat fyrir mig þegar ég kem þreyttur heim úr vinnunni. Það er alveg frábært, skil ekkert afhverju menn(konur) voru eitthvað vesenast í þessu. Það er bara allt auðveldara. Nú höfum við allt í einu miklu meiri tíma til að gera ekki neitt. Alveg heilan helling af sófalúrum, hjólatúrum og hundasúrum.
Ég set bráðum í gang herferð: Konuna á bak við eldavélina. Spáið í allan peningin sem við myndum spara í menntakerfinu. Þegar konurnar væru búnar með 7.bekk þá taka þær tvö ár til viðbótar í hússtjórnunarnámi og voila klárar til undaneldis.

Svo erum við vikulega á fæðingaogforeldranámskeiði. Það er notalegt, þá hittir maður annað kúlufólk. Við erum með einn eðlisfræðing í hópnum og hann er bara pirrandi.
Það mætti halda að hann væri á leiðinni í próf. Stundum hef ég velt því fyrir mér hvort að það sé hann en ekki konan sem á að fæða.
Og svo er annað sem kom mér svoldið á óvart. Það er að mennirnir eru með meiningar um hvort að konan eigi að fá og hvað hún eigi að fá af verkjastillandi þegar fæðingin er kominn í gang. Seríöst, það eru ekki þeir sem eru að fæða. Ég verð þarna og styð mína kæru í öllum þeim lyfjagjöfum sem hún vill og vill ekki fá.
Svo var verið að velta sér aðeins upp úr sársaukanum og við kallarnir spurðir að því hvað okkur fyndist og ég segi í grínalvöru að ég sé nú bara feginn að það sé ekki ég sem er að fæða. Svo byrjuðu menn að segja að þetta væri jú bara náttúrulegt og þessi sársauki væri bara af hinu góða og þetta væri bara ekkert mál. Hippar allir saman.

Strákurinn hefur fengið nafn, Viktoríus, í höfuðið á norskri gúmmífrænku og það er nefnileg það.