03 February, 2007

Ferðasagan: Vegurinn til Parísar

Kafli 1

Þetta byrjaði allt saman fallega, félagi Hilli var svo vinalegur að koma ásamt sinni heitelskuðu Ólöfu og sækja okkur Jönson til Árósa og keyra okkur út á flugvöll. Við turtildúfurnar settumst í baksætið og hlökkuðum ákaft til komandi daga. Veðrið var þokkalegt, alla vega innan úr bílnum, það rigndi og var mjög lágskýjað. Ekið var út á hraðbraut og áleiðis til Vejle, svo var beygt inn á einhvern sveitaveginn og tekin short cut til að stytta ferðatímann, sem hafði verið reiknaður nákvæmlega út af nanósérfræðingum og sameindalíffræðingum. Ekki vildi betur til en að löggan var búinn að loka fyrir veginn sem við ætluðum að keyra. Nú voru góð ráð dýr því ekki þekktum við svæðið allt of vel, við ókum dálítinn spöl áfram og vonuðum að við værum á réttri leið. Þar sem tíminn var af skornum skammti tókum við enga óþarfa áhættu heldur stönsuðum í húsgagnaverksmiðju og spurðum til vegar. Hilmar reykspólaði inn á bílaplanið, tók handbremsubeygju og bakkaði í stæði. Við stukkum út, réðumst að háaldraðri afgreiðslukonuninni og spurðum hvort að hægt væri að komast til Billund þessa leiðina. “Det må i undskylde, men jeg kender det her område ikke så godt, men måske kan den unge mand herinde fortælle jer lidt mere”. Við snúum okkur við og mætum þar manni sem var ca. 3 vikum yngri en konan. Hann var ákafur í að hjálpa okkur og við útskýrðum vandamálið, að við værum á leið út á flugvöll og værum orðinn sein fyrir. Hann skildi það vel og við spurðum hann hvort að við hefðum staðsett okkur rétt á vegakortinu okkar. Hann gaf nú lítið fyrir vegakort og útskýrði leiðina vel og vandlega, vel og vandlega, vel og vandlega og vel og vand...
Þegar hann byrjaði að útskýra leiðina vel og vandlega í fjórða sinn bökkuðum við út, þökkuðum fyrir okkur og brunuðum af stað...
... og svo fórum við inn í biðsalinn við útganginn út í flugvélina. Þar sem við sitjum og bíðum, koma tvær gullfallegar danskar skvísur niður tröppurnar, og viti menn Herr Jönson og önnur stúlkan, hún Sine, áttu sameiginlega vinkonu og höfðu hist áður. Þarna urðu miklir fagnaðarfundir (eða hátt í það), við fengum númerið þeirra og skipulögðum hitting þegar við kæmum til Parísar. Þær voru að gera verkefni fyrir arkitektaskólann, voru að fara að skoða hús.
Þetta hús: http://www.galinsky.com/buildings/savoye/index.htm

...og svo komum við inn á gistiheimilið okkar, sem hafði ekki klósett inni á herbergi, sem betur fer. Sem betur fer segi ég, því það er tíska á sumum gistiheimilum í París að í herberginu er sturta og klósett, og þá meina ég bara í herberginu, enginn hurð eða hola eða neitt, bara í einu horninu. Ekki það, það eru örugglega áhugaverðar samræður á meðan allir hafa sína morgunskitu saman. En nóg um það, við kíkjum í kring um okkur og athugum hverjir deila með okkur herbergi. Það er nú ekki mikið að gerast í þeirri deildinni, en þó er farangri staflað í eitt hornið, kvenmannsfarangur.
Ef maður spyr ekki, þá fær maður aldrei að vita neitt og upphófust nú persónunjósnir af grófustu gráðu. Fyrst var reynt að komast að þjóðerni, en myndasögublaðið sem lá þarna var franskt svo ekki var mikið að græða á því.
Dúbí dúbí dúbí
Hvaða skóstærð notar hún, og það var skóstærð 40, jæja væntanlega í hærri kantinum en samt ekkert konkret.
Dúbí dúbí dúbí
Er þetta beltið hennar sem hangir þarna. Humm. Og beltið var skoðað, við fundum mest notaða gatið og mátuðum svo við okkur. Jönson er rindill svo að beltið komst þrisvar utan um hann, en einungis tvisvar utan um mig.
Fí fó fæ fumm
Við látum kyrrt liggja og skundum út á næsta bar. Þar sem við vorum í hverfinu, afsakið. Jönson bjó í París í nokkra mánuði í fyrra ásamt franskri kærustu sinni og við fórum þarna niður eftir til að sækja verkfærakassann hans og fleira. Þar sem við vorum í hverfinu hans, þá hafði hann ákveðinn bar í huga. Barinn var Dellys eða Dullys og er í 100m fjarlægð frá gare l’est lestarstöðinni.
(Hér átti að vera kort af parís en það er eitthvað ves á kerfinu.)

Og það átti eftir að hafa afdrifaríkar afleiðingar að fara þar inn. Þar inni hittum við Barbapabba, sem var barþjónninn okkar ásamt frönskum kennara, hana Katrine sem spjölluðum aðeins við. Ekki stoppuðum við lengi það skiptið því höfðum mælt okkur mót við fyrrverandi kærustuna, hana Kim, á kínverskum veitingastað. Og svo var borðað og drukkið, fram á kvöld.
Og svo sá ég svoldið nýtt, Kim býr í þriggja herbergja íbúð, ekki mjög stórri, en nokkuð huggulegri. Leigir út eitt herbergi, og svo sefur hún í einu og dóttirinn sefur í því sem væntanlega væri notað sem matkrókur undir öðrum kringumstæðum. En það er svo merkilega raðað, eða ekki raðað að það er nánast hvergi hægt að setjast niður í íbúðinni. Ég hef 12,5fm til að bjóða fólki í heimsókn og það geta vel setið fjórir, og jafnvel 5-6 ef það er stemming. Við vorum fimm og það sátu tvö á gólfinu. Merkilegt.
En meira var það ekki í þetta skiptið. Væntanlegt, heilsað upp á djöfullinn í Notre Dame, sofandi kínverjar, franskar söngdívur og fleira.

1 comment:

Anonymous said...

Gaman að frétta af ferðinni en ég er spenntust að vita hvaða kvenmaður var með ykkur í herbergi. Ég var farin að halda að það væri ég.