08 December, 2005

Sjúkur maður gengur

Og hvað sögðu læknarnir á spítalanum?
Ég átti að panta tíma hjá þér.
Og kíktu þeir ekkert á þig?
Jú,jú fjórir læknar ef ég man rétt.
Enginn eyrnalæknir.
Ja, einn þeirra kíkti í eyrun á mér.
ok. Ég get nefnilega ekkert meira gert.
(Þetta var eftir fjóra og hálfa mínutu í samtali við spesjalistann)

Þú ert með sérstakt tilvik flensu sem er bundið við vinstra innra eyrað.
Þú færð jafnvægið fljótlega (það er næstum komið).
Og heyrnin verður jafngóð, svona þegar að því kemur.

Þannig er það kæru vinir ég er heyrnalaus á vinstra og skakkur og það verður bara að hafa það.

06 December, 2005

Spúúkí

Ég var fluttur með hraði á spítala á sunnudagskvöldið. Eftir fjögurra tíma stanslausar ælur og óráð. Þar héldu áfram ælur og óráð og tilraunir með jafnvægisskyn, þar til læknarnir voru nú orðnir nokkuð vissir í sinni sök, allir fimmtán læknarnir sem heimsóttu mig.
Það er bara ekkert að þér, eða alla vega ekkert sem við sjáum. Þig svimar og þér er óglatt.
Váá þið eruð svo klárir. Og svo var ég sendur heim seinnipartinn í gær og þarf að finna mér spesjalista til að kíkja á mig. En ég er allur að braggast, 30 tíma svefn hefur sín góðu áhrif.

En nú að spúúkí hlutanum.
Ég var með óráði og vissi sjaldnast hvar ég var.
Það var fólk sem talaði mikið um mig og stundum við mig.
Það var stúlka sem skreið upp í hjá mér.
Og það kom kona í hvítum klæðum sem stakk mig í höndina og ég hrökk við.

Það síðasta í draumnum var örugglega að það er bannað að káfa á hjúkrunarkonum.

01 December, 2005

Góður nætursvefn

Er gulli betri.
Mig dreymir.
Mig dreymir mikið og yfirleitt ægilega skemmtilega. Draumfarir mínar væru efni nokkur bindi. En sumir draumar eru óþægilegri og eftirminnilegri en aðrir, aðallega af því að þessi tegund af draumum boðar yfirleitt eitthvað slæmt. Ekki endilega gagnavart mér heldur líka hjá fólki sem ég þekki. En ég skil ekki drauma þannig að ég fatta það aldrei fyrr en eftir á.

Hitti draug í draumi í nótt.
í draumnum þá rumska ég, rís upp og veit ekkert hvar ég er og leggst því bara niður aftur. Eitthvað fór þetta í fólkið sem var í herberginu og þau fara að tala um mig. Ég held að það hafi talað íslensku, alla vega skildi ég þau en var ekki alveg vanur þessu tungumáli. Ein segir: "Er hann vaknaður, athugaðu. Það held ég ekki,"segir önnur. Svo gengur sú síðari frá hópnum og ætlar að athuga hvort að ég sé vaknaður, hún skríður upp í hjá mér og ég vakna.
vúússh
Nú er ég í herberginu mínu, glaðvakandi það er enginn hér. Órólegur leggst ég út af en er vakandi. Þá kemur sú hin sama og stendur við hliðina á rúminu.
Grönn kona í hvítum klæðum, en ekki get ég munað andlitið á henni.
"Sofðu áfram, þetta er allt í lagi", segir hún og breiðir yfir mig.
En ég er vakandi svo að ég teygi mig í áttina að henni og gríp í hönd hennar.
BLAMM
Konan hverfur, ég fæ shokk, hristist og skelf og get ekki vaknað.
Hrekk svo upp bullsveittur.
Og eitt af því fyrsta sem kemur upp er:"Þú mátt ekki snerta hana, þú veist það alveg."

Ég held að hún hafi ekki verið lifandi.

30 November, 2005

Á mörkunum

Ég gafst upp áðan og fór heim og sofnaði, klukkan hálf fimm. Það var næs, var að standa upp og ætla að fara að finna mér eitthvað að lesa. En ég er bara ekkert sáttur við þetta ástand, ég er að læra 8-12 tíma á dag. Og svo þegar við bætum þessum klukkutíma sem fer í að hjóla til og frá skóla og svo venjulegum kúk og piss og röfl tíma. Þá geri ég bara ekkert annað en að lesa, eða hugsa um að lesa. Ég tók upp nýjar lestrarvenjur fyrir 2 vikum reyna að komast yfir efnið í skólanum og vera í fríi heima. Síðustu tvær vikur hef ég mætt klukkan 8 og ekki farið heim fyrr en eftir 17 á daginn. Þetta hefur gengið ágætlega, þar til að maður fór að átta sig á því að maður komst ekki yfir allt efnið á þessum tíma og þurfti að fara að lesa á kvöldin líka. Og nú er danski vinur minn ákveðinn í að hætta og ætlar til Parísar eftir jól og búa með konunni sinni. Ég er þreyttur.
Hitti samt íslending sem vinnur í skólanum, er eðlisfræðingur og vinnur í við að búa til dót í geimför. Hann segir að þetta sé gaman, hann fær að "leika sér" allan daginn.
Ég tek á því fram að jólum, sé svo til.

23 November, 2005

Speki

Þessar setningar hafa einhvern veginn náð athygli minni umfram aðrar.

Change does not happen in time, change itself is time.
Electronic journal of theoratical physics.

There are no tits on the radio.
Scissor sisters

17 November, 2005

Keypti tölvu

Uss, ég sé svosum ekki eftir peningunum sem fóru í tölvuna, ca. 5 mánaða leiga. Heldur sé ég eftir tímanum sem fór í þetta. Ó boj.
Allt í einu, fyrir ca. 3 vikum varð ég alveg viðþolslaus mig langaði svo í nýja tölvu. Ekki það að ferðavélin dyggði ekki, heldur "þurfti" ég að fá nýja tölvu þetta gekk ekki lengur.
Það voru svo sem nokkar ástæður sem ég gaf mér, mín er of lengi í gang. Er lengi að opna forritin, get ekki drepið þjóðverja, skrifar ekki geisladiska, ekki hægt að vinna með stór forrit á henni og bla bla bla.
Vandamálið var að:
Ég nota engin forrit, nema músík,póst og internet. Án gríns það er eina notkunin á vélinni ekki mesta, heldur eina.
Svo hvað hef ég að gera við nýja tölvu. Jú, þegar neyðin er stærst er hjálpin næst. Við erum byrjuð að forrita stærðfræðidæmi inn í forrit, og tölvurnar í skólanum eru vandræðum með það. Þær eru 18 sinnum hraðvirkari en mín held ég.
Sko, hah, ég þarf tölvu.
En aftur að tímaeyðslunni, eða dundinu. Ég ætlaði að kaupa ferðavél af því að það er best, skoðaði ferðavélar í minnst 3 tíma á dag í 18 daga. Það eru alla vega 54 tímar, það er nú nokkuð mikið finnst mér. Eftir heitar samræður við sjálfan mig sá ég að ég væri bara asni og ákvað að kaupa borðvél, enda hægt að fá meiri græju fyrir peninginn. Er ekki búinn að fá vélina en ég ætla að drepa alla þjóðverjana þegar ég fæ græjuna, nei afsakið forrita í Matlab.



Ps.
En nú veit ég allt um muninn á 400MHz og 533MHz DDR minniskubbum og afhverju maður vill kaupa móðurborð með 915 kubbasetti en ekki 855 og hvers vegna dual core örgjörvi er bara stundum betri og 64 bita virkar ekki alltaf eins og hann á að gera... DÍÍSEES.

07 November, 2005

Kóngurinn mætti á svæðið.

Hvað haldið þið að hafi gerst áðan. Það er ekki nema von að þú lesandi hafir ekki hugmynd um það. Let me forklare það örlítið better. Ég var að æfa fjarstýringuna og hvað sé ég Davíð Oddsson var að flytja veðurfréttir í norsku sjónvarpi. Hann er ótrúlegur.

...eða að genamengi mannskepnunnar er takmarkað.